01.02.1973
Sameinað þing: 39. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1792 í B-deild Alþingistíðinda. (1404)

Minning Jóns Pálmasonar

Forseti (EystJ):

Áður en gengið verður til dagskrár, verður minnzt látins fyrrv. alþm.

Jón Pálmason fyrrv. alþm. og alþingisforseti andaðist í morgun í héraðshælinu á Blönduósi, 84 ára að aldri. Hann var fæddur 28. nóv. 1888 á Ytri-Löngumýri í Svínavatnshreppi í Austur–Húnavatnssýslu. Foreldrar hans voru Pálmi bóndi þar Jónsson alþm. og bónda í Stóradal Pálmasonar og kona hans, Ingibjörg Eggertsdóttir bónda á Skefilsstöðum á Skaga Þorvaldssonar. Hann lauk prófi í bændaskólanum á Hólum vorið 1909. Bóndi á Ytri-Löngumýri var hann 1913–1915 og 1917–1923, á Mörk í Bólstaðarhlíðarhreppi 1915–1917 og á Akri í Torfalækjarhreppi 1923–1963. Hann var kjörinn alþm. Austur-Húnvetninga árið 1933 og átti síðan sæti á Alþingi samfleytt til vors 1959. Eftir það átti hann nokkrum sinnum sæti á Alþ. sem varaþm. á árunum 1960–1963, sat á 36 þingum alls. Hann var forseti sameinaðs Alþingis. 1945–1949 og aftur 1950–1953. Landbúnaðarráðherra var hann frá 6. des. 1949 til 14. marz 1950. Yfirskoðunarmaður ríkisreikninga var hann 1937–1964. Í nýbýlastjórn átti hann sæti 1940–1970 og var lengi formaður hennar. Hann var í bankaráði Landahanka Íslands frá 1953–1956 og í bankaráði Búnaðarbanka Íslands 1956–1968 og formaður þess bankaráðs frá 1961. Auk þeirra starfa, sem hér hafa verið falin, gegndi Jón Pálmason ýmsum trúnaðarstörfum heima í héraði. Síðustu æviárin naut hann rólegrar elli ýmist hér í Reykjavík eða norður á Akri, en átti við mikla vanheilsu að stríða síðustu mánuðina.

Jón Pálmason ólst upp við landbúnaðarstörf á heimili foreldra sinna og var síðan bóndi lengst af. Hann var ötull ræktunarmaður lands og bússtofns og framkvæmdamaður um byggingar á jörð þeirri, sem hann bjó lengst á. En hann var jafnframt áhugasamur um héraðsmál og landsmál, og á fimmtugsaldri var hann kjörinn til setu á Alþ. og átti lengi að fagna öruggu fylgi kjósenda. Hann var athafnasamur við þingstörf, lét sig mestu skipta landbúnáðar-, samgöngu- og fjármál og átti frumkvæði að ýmsum nýmælum í löggjöf um þau efni.

Jón Pálmason var áhugamikill og sókndjarfur í baráttu fyrir framgangi áhugamála sinna. Hann ritaði fjölda blaðagreina um landsmál og var ritstjóri Ísafoldar og Varðar á árunum 1943–1950. Hann var mælskumaður og vel hagorður, gleðimaður í samkvæmum og höfðingi heim að sækja. Forsetastörfum á Alþingi gegndi hann með reisn og skörungskap, og öll þingstörf vann hann af mikilli alúð. Við fráfall hans er á bak að sjá athafnasömum bónda og athafnasömum stjórnmálamanni, sem um langt skeið hafði mikil áhrif bæði heima í héraði og í sölum Alþingis.

Ég vil biðja hv. alþm. að minnast Jóns Pálmasonar með því að risa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]